Vinsamlegast lesið skilmála þessa vel. Með því að nota Kisann og skrá þig sem notandi, samþykkir þú skilmálana. Þessi íslenska útgáfa skilmálanna gildir í þeim tilvikum þar sem allir aðilar eru með heimilisfesti á Íslandi. Í öðrum tilvikum gildir ensk þýðing þeirra.

1. Hugtök
Orðið Kisinn vísar hér til netsíðunnar á léninu kisinn.is og öðrum lénum sem sama, eða tengd, síða er hýst á, hvort sem um er að ræða lénið kisinn.com eða önnur, hvort sem er á íslensku eða öðrum tungumálum. Orðið Kisinn vísar einnig til félags þess sem stendur að þessari starfsemi, sem er Kisinn ehf.

Orðin Seljandi og Seljendur vísa til þeirra notenda Kisans sem hafa stofnað á honum verslanir.

Orðin Kaupandi og Kaupendur vísa til þeirra notenda Kisans sem panta þar vörur. Orðin Notandi og Notendur vísa til allra notenda, þ.m.t. Seljenda og Kaupenda.

2. Skilmálar og breyting þeirra
Með skráningu sem Notandi hefur aðili samþykkt skilmála þessa. Breytist skilmálarnir skulu þeir teljast gilda frá tímasetningu breytingar og telst Notandi frá þeim tímapunkti samþykkur þannig breyttum skilmálum, nema hann hætti notkun sinni. Breytta skilmála skal tilkynna á vefsíðunni eða með tölvupósti.

Hver verslun hefur rétt til að setja sína viðbótarskilmála, t.d. varðandi vöruskil, skipti og annað. Kaupendur teljast samþykkja þá skilmála með kaupum sínum. Seljendur ábyrgjast gagnvart Kisanum að skilmálar þeirra séu í samræmi við lög og skilmála Kisans, auk þess að teljast eðlilegir í viðskiptum.

3. Kisinn er vettvangur fyrir verslanir
Kisinn er vettvangur fyrir verslanir og er ekki verslun sjálfur. Þetta þýðir að hver Seljandi er ábyrgur gagnvart Kaupendum sínum beint, án milligöngu Kisans. Kaupendur teljast þannig t.a.m. upplýstir um að Kisinn sé aðeins milliliður og ekki samábyrgur seljandanum, sbr. 1. gr. laga um neytendakaup nr. 48/2003.

Kaupendur eru einnig ábyrgir beint gagnvart Seljendum, með sama hætti, eftir því sem lög og hefðir eiga við.

Kisinn tekur þó að sér að taka á móti greiðslum og er Kisinn ábyrgur fyrir því að koma þeim til skila eftir að þóknun hefur verið tekin af.

Þótt Kisinn hafi ekki skyldu til að bera ábyrgð fyrir hönd Seljanda gagnvart Kaupendum, hefur hann rétt til að endurgreiða Kaupendum vöru fyrir hönd Seljanda telji hann sérstaklega standa á og eignast þannig kröfu á Seljanda að sama marki. Í þessu ákvæði felst engin skylda Kisans til að framkvæma slíkar endurgreiðslur og telst Kisinn ekki vekja væntingar um slíkt.

Seljendur ábyrgjast gagnvart Kisanum að fara að öllum lögum, svo sem varðandi skatta og neytendakaup.

4. Gæði o.fl.
Kisinn er vettvangur og getur því ekki talist ábyrgur fyrir gæðum, verði, þjónustu, góðu siðferði verslana eða að vörur séu löglegar, þar sem hann fer ekki yfir Seljendur og vörur þeirra fyrir fram og þeir geta skráð verslanir og vörur sínar beint.

Kisinn hefur rétt en ekki skyldu til að fjarlægja af vefsvæði sínu verslanir og vörur sem hann telur ekki samræmast birtri eða óbirtri stefnu sinni eða af hvaða annarri ástæðu sem er, án endurgreiðslu þóknana. Kisinn hefur rétt en ekki skyldu til að neita að veita hverjum sem er þjónustu af hvaða ástæðu sem er. Starfsemi Seljenda má ekki ganga í berhögg við lög eða gott siðferði eða skapa hættu. Þetta breytir því ekki að hver Seljandi er ábyrgur fyrir því sem hann gerir á vettvangi Kisans og Kisinn ekki. Komi t.a.m. upp álitamál, þar sem Kisinn ákveður að athuguðu máli ekki að loka verslun, þrátt fyrir að aðrir aðilar og eftir atvikum dómstólar telji Seljanda síðar meir brjóta lög, er Seljandi einn, og eftir atvikum samstarfsaðilar hans, ábyrgur fyrir sinni starfsemi. Allir Notendur viðurkenna að Kisinn er vettvangur en ekki aðili að málum sem kunna að koma upp vegna mögulegs ólögmætis starfsemi Seljenda.

Seljendur ábyrgjast að allar vörur sem þeir skrá í verslun sína á Kisanum séu til sölu og tiltækar. Veita þarf réttar upplýsingar um vöru og mega upplýsingar ekki vera villandi eða gefa ranga mynd. Seljendur ábyrgjast að vara sé send til Kaupenda án tafar. Kisinn ábyrgist ekki gæði, þjónustu og annað varðandi vöruna gagnvart Kaupendum en bendir þeim á að kvarta og eftir atvikum geta atriða varðandi gæði í umsögnum, auk þess sem að þeir eigi beinan rétt gagnvart Seljendum samkæmt lögum, hefðum og skilmálum. Sala er bindandi eftir að hún er komin á samkvæmt hugbúnaðarkerfi Kisans. Þá getur Kaupandi ekki skipt vöru, skilað vöru eða fengið endurgreiðslu nema annað sé tekið fram af Seljanda.

Þá hefur Kaupandi fjórtán daga frest til að falla frá samningi utan fastrar starfsstöðvar eða fjarsölusamningi á þess að tilgreina neina ástæðu fyrir þeirri ákvörðun sinni samkvæmt 16. gr. laga nr. 16/2016. Það gerir Kaupandi með því að senda Seljanda rafpóst eða Kisanum ehf. á netfangið info@kisinn.is. Frestur reiknast frá þeim degi er Kaupandi móttekur vöruna. Seljandi endurgreiðir þá vöruna og sendingarkostnað en Kaupandinn skal bera ábyrgð á sendingarkostnað við skil vörunnar.

Ekki er heimilt að selja notaðar vörur á Kisanum, nema um sé að ræða antíkvarning sem að lágmarki er 25 ára gamall.

5. Notendur
Hver Notandi vottar að hann sé fjárráða og a.m.k. 18 ára að aldri. Yngri en 18 ára geta aðeins notað Kisann í gegnum ábyrgðarmann sem náð hefur þeim aldri og telst þá sá vera hinn eiginlegi Notandi í skilningi skilmála þessara.

Hver Notandi er ábyrgur fyrir lykilorðum sínum. Hver Notandi er ábyrgur fyrir því að notandaupplýsingar séu réttar á hverjum tíma.

Lögaðilar, svo sem hlutafélög og einkahlutafélög, geta verið Notendur.

6. Mynt
Notendur gera sér grein fyrir að verð er sett fram í ákveðinni mynt, sem kann að vera reiknað í aðra mynt þegar Kaupandi skoðar vöru á vefnum áður en hann gerir innkaupin. Breyting getur orðið á gengi fram að því að gengið er frá kaupum, en breytingar ættu að vera alla jafna litlar.

7. Skattar og lög
Hver seljandi er ábyrgur varðandi lögmæti starfsemi sinnar og ber þ.m.t. ábyrgð á skattamálum. Þótt sölukerfi Kisans geri ráð fyrir að hægt sé að velja mismunandi virðisaukaskattsprósentur sem birtast á sölustaðfestingu með sundurliðun, ber seljandi ábyrgð á því að rétt hlutfall sé innheimt, sé það eitthvert annað en fram kemur þar, þar með talið vegna (en ekki takmarkað við) sölu frá öðru landi en Íslandi.

8. Þóknanir og gjöld
Seljendur greiða þóknanir til Kisans samkvæmt verðskrá á hverjum tíma, þ.e. hlutfallsþóknun af sölu. Þóknanir reiknast sem hlutfall af sölu eftir að gjöld til greiðslukortafyrirtækja eða annarrar greiðslumiðlunar hafa verið tekin. Kisinn hefur rétt til að innheimta gjöld vegna greiðslumiðlunar eftir því sem við á.

Hlutfallsþóknanir af sölu eru teknar af sölu.

Seljendur þurfa að tilgreina íslenskan bankareikning til að taka á móti greiðslum af sölu í gegnum Kisann.

Það verð sem Kaupanda er kynnt í verslun á Kisanum er það heildarverð sem Kaupandi þarf að greiða, þó sbr. 6. gr.

9. Undanskot frá þóknunum
Seljendum er ekki heimilt að komast undan þóknunum Kisans með því að framkvæma greiðslur vegna sölu sem hlýst af verslun þeirra á Kisanum framhjá hugbúnaðarkerfi Kisans eða breyta verði eftir á. Sendingarkostnaður þarf að endurspegla nokkurn veginn raunverulegan sendingarkostnað. Ekki er heimilt að nota Kisann sem markaðssetningarsíðu til að vísa viðskiptum annað. Seljandi sem selur einnig sömu vörur annars staðar, t.d. í verslunarhúsnæði, skal bjóða sitt besta verð á Kisanum.

10. Höfundarréttur og skaðleysi
Kisinn má nota myndir og annað efni í verslunum Seljenda til markaðssetningar á Kisanum og eftir atvikum markaðssetningar á viðkomandi verslun.

Kisinn hefur rétt á að nota ábendingar og hugmyndir frá Notendum. Notendur teljast ekki hafa hugverkarétt á neinum slíkum ábendingum eða hugmyndum.

Seljandi ábyrgist að honum sé heimilt að nota hverjar þær myndir og annað efni sem kann að vera höfundarréttarvarið á Kisanum og gerir sér t.a.m. grein fyrir að efni á Kisanum kunni að verða deilt annars staðar, t.d. á samfélagsmiðlum, og tryggja skaðleysi Kisans vegna slíkrar birtingar, sem og birtingar á Kisanum sjálfum.

Seljandi tryggir skaðleysi Kisans varðandi allt sem í starfsemi verslunar hans á Kisanum felur í sér. Kisinn er ekki ábyrgur fyrir neinum þeim skaða eða tapi sem skapast getur í samhengi við notkun Notenda á Kisanum.

11. Stöðugleiki þjónustu
Allir aðilar, þ.m.t. Kisinn, hafa hagsmuni af því að þjónusta og vefsíða Kisans sé aðgengileg á hverjum tíma. Kisinn tryggir ekki að þjónustuna sé ávallt hægt að veita og að vefsíðan sé alltaf aðgengileg og tæknileg vandamál komi ekki upp.

12. Ágreiningur
Aðilar skulu reyna að leysa ágreining með samkomulagi ef hægt er. Ella skal málið rekið fyrir þriggja manna gerðardómi, skipuðum af aðilum í sameiningu. Ef aðilar ná ekki samkomulagi um skipan gerðardóms skal málið rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Farið skal eftir íslenskum lögum við túlkun og framkvæmd þessara skilmála.

14. september 2016
Kisinn ehf.

Skráðu þig á póstlista Kisans

Á póstlistanum færðu send nýjustu tilboð og fréttir frá ritstjórninni