Henny - uppskrift að sjali úr skeljahekli

frá Helga handverk

Við erum þrjár vinkonur sem hittumst oft á bókakaffihúsum eða kvikmyndahúsum til að njóta þess besta sem vísindaskáldskapur og ævintýraheimurinn hefur að bjóða. Eitt árið datt mér í hug að hekla gamaldags sjöl sem afmælisgjafir handa okkur öllum. Henny er þriðja sjalið og heitir í höfuðið eigandanum. Innblásturinn að þessu sjali eru löngu hyrnurnar sem hægt er að vefja utan um sig. Mig langaði að prufa að hekla sjal eftir þessu fallega formi, til að sjalið væri bæði létt og mjúkt er það með skeljamunstri á grófa nál.

Þessi uppskrift er frekar einföld og ætti að henta byrjendum ágætlega. Uppskriftin er skrifuð en skýringarmyndir með hekltáknum til glöggvunar fyrir þá sem vilja.

Sjalið er heklað fram og til baka með nál nr. 6. Útaukning er í hverri umferð við sinn hvorn endann, en í þriðju hverri umferð við miðju. Gott er að nota heklmerki (stitch marker) til að merkja miðju sjalsins svo útaukning gleymist síður. Heklmerki má kaupa hjá mér eða í flestum hannyrðabúðum.

Það skemmtilegasta við sjöl er að nákvæm stærð skiptir ekki öllu máli og því mjög auðvelt að skipta um garn með svipaða heklfestu. Í þetta sjal nota ég Baby Merino garn frá Drops en ég elska hvað það er mjúkt og stingur nákvæmlega ekkert! Ef skipta á um garn er gott að miða við að heklfestan sé svipuð og en að öðru leiti býð ég þér að leyfa sköpunargleðinni að njóta sín! Í hvert sjal fara 300 g af Baby Merino. Ég hef líka gert sjalið úr afgangseinbandi á nál nr. 6 og það kom mjög vel út. Mátið sjalið endilega á meðan þið heklið og hafið það minna eða stærra eftir ykkar smekk og leikið ykkur með liti og skiptingar. Þið megið gjarnan nota myllumerkið #Henny og merkja @helgahandverk svo ég sjái meistaraverkin ykkar því fátt þykir mér skemmtilegra en að sjá hugmyndaflugið fá að njóta sín og hönnunina mína fá sjálfstætt líf ❤

ATH Þegar búið er að borga fyrir uppskriftina birtist niðurhalshnappur þar sem uppskriftinni er hlaðið niður í tölvu/síma. Ef eitthvað fer úrskeiðis getur þú haft samband hér á síðunni og þá færðu uppskriftina senda um hæl.

Í flestum tilfellum fara vörur í póst daginn eftir pöntun en ef þarf að seinka afhendingu verður viðskiptavinurinn látinn vita samdægurs.

890 kr.
Meira frá seljanda

Skráðu þig á póstlista Kisans

Á póstlistanum færðu send nýjustu tilboð og fréttir frá ritstjórninni