„Áhugi minn hefur alltaf legið í því að nýta mér áhrifin sem ég fæ úr íslenskri náttúru“

Erna Björk er með verslunina Erna Björk mosaic.is

Erna Björk Antonsdóttir hefur vakið verðskuldaða athygli á Kisanum fyrir sína búð en þar er að finna listmuni sem spanna allt frá fallega prjónuðum peysum til skeljavasa og mósaíklistaverka. Við báðum Ernu Björk um að gefa okkur innsýn inn í líf sitt og innblástur:

„Ég er fædd 30. nóvember 1950 og ólst upp vestur á Melunum í Reykjavík. Þó að ég sé fædd og uppalin í Reykjavík þá hef ég alltaf verið mikið náttúrubarn í mér og í raun aldrei kunnað vel við mig á malbikinu og borgarlífið heillar mig ekki.

Amma mín og mamma voru báðar mjög listrænar og á ég teikningar, málverk og útsaumuð listaverk eftir þær báðar. Hvort sem var í útsaumi, prjóni eða myndsköpun fóru þær báðar sínar eigin leiðir í útfærslum því sköpunarþörfin var rík. Ég er viss um að árátta mín að vilja ekki fara eftir annarra uppskriftum heldur fara eftir mínu eigin hugviti hafi ég fengið í arf frá þeim. Mér dugði skammt að teikna því snemma kom árátta að búa til eitthvað úr fallegum efnivið sem varð á vegi mínum. Áferð, litir, lögun .. ég gat heillast af ótrúlegustu hlutum sem ég fann úti í náttúrunni.

Í gagnfræðiskóla varð ég svo lánsöm að fá myndlistarkennara sem opnaði fyrir mér nýjan heim til að fá útrás fyrir þetta sem ég hafði fundið svo mikla þörf fyrir en kunni ekki að skilgreina eða vinna úr. Guðmundur Magnússon kennari minn fór með okkur krakkana út í náttúruna að tína steina og niður í fjöru til að leita fanga í myndefni og láta okkur síðan gera myndir úr því sem við höfðum fundið. Loksins opnaðist þessi heillandi heimur fyrir mér og er ég Guðmundi mjög þakklát fyrir að leiða mig inn í hann. Á þessum tíma gerði ég mína fyrstu mósaíkmynd sem ég vann úr muldu grjóti og skeljum og er það andlitsmynd af hinum víðfrægu The Beatles sem voru átrúnaðargoðin á þeim tíma. Þetta var árið 1965.

Eftir eins árs skiptinám í Bandaríkjunum var ekki annað í boði fyrir mig en að fara út á vinnumarkað. Síðan tók við gifting, barneignir og lífið snérist um flest annað en listsköpun. Þó reyndi ég að grípa í handvinnu og handverkið og gerði m.a. veggmynd úr grjóti ca 250x120cm á stofuvegg heima hjá mér.

Það var ekki fyrr en um 2003 að ég tók upp þráðinn að nýju og skellti mér á mósaíknámskeið með dóttur minni. Eftir það var ekki aftur snúið heldur fór ég þrívegis til Ravenna á Ítalíu í Mosaic Art School til að læra meira. Þar kynntist ég tækni sem notuð hefur verið allt aftur í aldir við að höggva marmara og búa til myndir í kalk og flytja síðan á þann stað sem þeim er ætlað. Einnig lærði ég að vinna gólfskeytingar og portraitmyndir. Þetta var mikilvægur lærdómur sem hjálpaði mér að halda áfram.

Á Ítalíu kynntist ég líka Smalti, glertegund sem notuð er í vegglistaverk eins og sjá má í gömlum kirkjum víðs vegar um heiminn. Þetta efni er hægt að fá í miklu úrvali lita með alls konar áferð. Hef ég flutt þetta efni inn sjálf til þess að nota m.a. í fiskamyndirnar mínar.

Áhugi minn hefur alltaf legið í því að nýta mér áhrifin sem ég fæ úr íslenskri náttúru og helst að nota sem mest íslenskan efnivið hvort sem það eru steinar, skeljar, hrúðurkarlar eða eitthvað annað náttúrulegt. Fjöllin, gróðurinn, sjórinn og endalaus fjölbreytni í litum og birtu á mismunandi árstíðum eru svo heillandi. Landið mitt er ómetanleg uppspretta hugmynda sem vonandi nær aldrei tæmast.“

Skráðu þig á póstlista Kisans

Á póstlistanum færðu send nýjustu tilboð og fréttir frá ritstjórninni